"Fyrir þremur og hálfu ári síðan mætti ég á minn fyrsta kynningarfund hjá AIESEC. Það var bara ein ástæða fyrir því. Mig langaði að fara til Afríku. Í janúar á þessu ári lét ég loksins verða af því, stökk út úr þægindahringnum, ofan í djúpu laugina og upp í flugvél til Kenía. Það var ein sú besta ákvörðun sem ég hef tekið í mörg ár.
Ferðin mín til Kenía var hápunktur ferils míns hjá AIESEC. Að fara þangað var ómetanleg lífsreynsla með öllu sem hún fól í sér. Öllu ógeðinu, öllum partýunum, öllum uppákomunum, öllum ferðunum, allri biðinni, öllum vinunum, öllum árekstrunum, öllum handtökunum og auðvitað öllum litlu sætu munaðarlausu börnunum.
Sem meðlimur í AIESEC þá upplifir maður svo miklu meira sem gefur manni mun fleiri tækifæri til að læra um lífið heldur en maður hefði annars gert. Áskoranirnar eru fáar ef maður gerir ekkert utan námsins í háskólanum, jafnvel þótt námið sé þungt í mörgum deildum. Þetta er einfaldlega svo miklu meira. Maður kynnist miklu fleira og fjölbreyttara fólki með ólíkan bakgrunn en öll með metnað fyrir því að upplifa meira og fá meira út úr háskólaárunum en bara skólinn býður upp á. Ég sé ekki eftir neinu sem ég gerði sem meðlimur AIESEC, nema þá kannski að hafa ekki nýtt öll tækifærin sem mér gáfust."