Friday, April 06, 2012

Undirbúningsnámskeið fyrir AIESEC sjálfboðaliða sumarið 2012

Dagana 31. mars og 1. apríl var haldið undirbúningsnámskeið fyrir verðandi sjálfboðaliða (GCDP) en í sumar fer hópur af ungu fólki út á vegum AIESEC og munu þau starfa í ýmsum framandi löndum við allskyns spennandi þróunarverkefni.

Margt fór fram á námskeiðinu en til að byrja með var hópurinn hristur saman með alls kyns leikjum en þar á meðal var farið í hlutverkaleik tengdum mismunandi menningarheimum til þess að fá smá tilfinningu fyrir því hvernig mismunandi menningarheimar geta haft áhrif á okkur. Farið var í gegnum það hvað menningarsjokk er og hvernig það getur komið upp þegar ferðast er til framandi landa ásamt því að farið var yfir það hvað ber að varast í samskiptum milli mismunandi menningarheima. Að lokum var farið í gegnum ýmsa hluti tengda umsóknarferlinu og hvernig best sé að finna drauma starfið. 

Markaðsteymi AIESEC ræddi aðeins við nokkra sem voru á námskeiðinu og forvitnaðist um það hvers vegna þau hafa áhuga á því að fara erlendis í sjálfboðaliðastarf á vegum AIESEC. Svörin voru mörg og misjöfn en flestir höfðu það þó sameiginlegt að vilja upplifa eitthvað nýtt og láta gott af sér leiða á sama tíma. Hér að neðan eru nokkrir punktar frá verðandi sjálfboðaliðum og ástæður fyrir því af hverju þau eru að fara út:


„Ég hef áhuga á að fara til Afríku og sjá lífið frá þeirra sjónarhorni, læra að meta litlu hlutina sem maður spáir kannski ekki í hérna heima“

„Mig langar að fá reynslu við að vinna erlendis og með fólki með misjafna bakgrunna og láta gott af mér leiða“

„Ég vil sjá eitthvað nýtt, þroskast og gefa eitthvað af mér. Við höfum það svo gott hérna á Íslandi að mér finnst það bara nauðsynlegt að gefa eitthvað til baka“


Gleðilega páska!